Körfuboltavöll í Laugardalinn

Körfuboltavöll í Laugardalinn

Byggja körfuboltavöll á útivistarsvæði í Laugardalnum með 6 - 8 körfum, upphituðu undirlagi og lýsingu. Völlurinn gæti verið staðsettur á skjólsælum stað nálægt öðrum íþróttamannvirkjum í Laugardalnum en samt nógu langt frá íbúðabyggð til þess að ekki yrði truflun af honum fyrir íbúa.

Points

Sterk hefð hefur verið fyrir körfubolta í Laugarnesinu þrátt fyrir að Ármann hafi einungis starfað í tæp 12 ár. Margir af okkar sterkustu körfuknattleiksmönnum eru úr Laugarnesinu, má þar helst nefna, Jón Arnór Stefánsson og Helga Má Magnússon margreynda landsliðsmenn. Þeir voru í Laugalækjarskóla og nýttu þeir völlinn við Bugl sem hefur nú verið tekinn. Það yrði frábær búbót fyrir íþróttalífið að fá flottan völl eins og er við Hagaskóla.

Í mörg ár voru 6 útikörfur á bílaplaninu við Þróttaraheimilið. Þegar það var tekið í gegn nýlega hurfu körfurnar af staðnum af þessu annars þekktasta útikörfboltasvæði höfuðborgarinnar. Það er gott pláss fyrir alvöru völl við hjólabrettasvæðið sem einnig er komið þarna við bílaplanið. Hægt væri að setja upp alvöru völl t.d Sport-Court útivöll með undirlagi og körfum líkt og er t.d við Ásvelli í Gbæ og víðar og byggja þar með Laugardalinn enn frekar fyrir útivist og hreyfingu.

Frábær hugmynd verði þetta gert almennilega. Ein eða tvær körfur við endann á bílastæði duga ekki til. Þetta þyrftu að vera alvöru vellir með sterkbyggðum körfum og helst keðju í stað neta þar sem netin eiga það til að slitna mjög fljótt. Girðing umhverfis völlinn gæfi svæðinu mikinn sjarma. Slíkur völlur myndi draga að sér mikinn fjölda iðkenda. Körfubolti hefur auk þess þann kost að það þarf ekki stóran völl og ætti því ekki að þurfa að ganga um of á græn svæði í dalnum.

Við Þróttaraheimilið voru nokkrir körfuboltavellir. Þeim hefur nú verið breytt í varanleg bílastæði með steyptum köntum og körfurnar fjarlægðar. Ljóst er að skipulagyfirvöld töldu ekki ástæðu til að hafa körfuboltavelli í dalnum. Nýtt svæði undir körfuboltavelli mun ganga á opin, græn svæði í dalnum og leggja það undir malbik.

Körfubolti er ein vinsælasta íþrótt Íslands og hentar rosalega vel til að spila úti. Í Laugardalnum voru körfur við Ármanns- og Þróttaraheimilið en búið er að taka þær. Það er mikill áhugi á körfubolta í hverfinu og að fá inn körfu á svæðið myndi bara auka íþróttaflóruna í Laugardalnum.

Körfuknattleikur hefur svoldið setið á hakanum hjá flestum í þessu fjölmenna hverfi. Góðir vellir í hverfinum myndu vonandi auka aðsókn barna og unglinga að skipulögðum æfingum hjá sínu hverfisliði og með því stækka körfuboltahreyfinguna á landinu.

Íbúasamtök umhverfis Laugardalinn hafa ötullega talað gegn fleiri íþróttamannvirkjum og bílastæðum í Laugardalinn árum saman. Þessi tillaga gengur þvert á þau rök sem íbúar hafa áður lagt fram. Laugardalur verður að halda þeim opnu svæðum sem eftir eru til almennrar útivistar: - án þess að þau séu girt af svo aðgangur sé aðeins heimill gegn gjaldi eða meðlimaðild. - án þess að grænum svæðum sé umbreytt í malbikaða, steypta eða mölborna fleti.

Völlurinn myndi skapa frábærar aðstæður fyrir börn, unglinga og fullorðna til þess að leika sér, æfa sig og skemmta sér. Körfubolti er mjög vinsæl íþrótt en góða velli vantar sárlega á höfuðborgarsvæðinu. Völlurinn á Klambratúni er geysivinsæll og ljóst er að góður körfuboltavöllur í Laugardalnum yrði strax mikið aðdráttarafl. Bætum við möguleikum á heilbrigðri hreyfingu í umhverfi okkar. Það er öllum til hagsbóta.

Það er mikil vöntun á völlum í hverfinu og í RVK almennt. Ég tel kjörið að koma fyrir nýjum völlum í laugardalnum og auka við flóru íþróttalífsins þar. Ég efast ekki um að vellirnir muni draga að sér mikinn fjölda líkt og klambratúnið, en því miður eru gæði karfanna þar ekki nægilega góðar. Mæli með ef farið verður í framkvæmdir að það verði gert í samstarfi við KKI og völlurin við Ásvelli í Gbæ og fleiri hafðir til fyrirmyndar.

Það vantar sárlega góðan körfuboltavöll fyrir bæði krakka og fullorðna til að leika sér á, og það ætti að vera nóg pláss fyrir hann í Laugardalnum. :)

Ég vill benda á að þennan völl væri hægt að gera í samstarfi við KKÍ því ég persónulega hef skoðun á vellinum við Klambratún því körfurnar þar eru því miður ekki nógu góðar. Körfur frá Porter (Sporttæki Hveragerði) eða Sport-Court með undirlagi væri fullkomið

Hef alltaf verið á móti því að taka græn svæði undir mannvirki sem standa eiga um aldur og ævi. Þetta er hins vegar útivera og hollusta á alla lund. Auðvelt er að græða svæðið á ný án mikils kostnaðar ef þurfa þykir. Aftur á móti er hætta á að svæðið yrði notað sem bílastæði eins og gerðist varðandi völlinn hjá Þrótti og það má ekki gerast.

Back to group

This content is created by the open source Your Priorities citizen engagement platform designed by the non profit Citizens Foundation

Your Priorities on GitHub

Check out the Citizens Foundation website for more information